Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt yfirfærslu allra sjóða frá rekstrarfélaginu Landsvaka til rekstrarfélagsins Landsbréfa. Bæði félögin eru í eigu Landsbankans. Landsbréf taka yfir rekstur sjóðanna um næstu mánaðamót.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að markmiðið með flutningum sé að verja hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa gegn afleiðingum sem tengjast hruni á fjármálamarkaði þar sem enn séu fyrir hendi óvissuþættir.

Í tilkynningunni segir:

„Sala sjóðanna er gerð að undangengnu verðmati tveggja óháðra aðila. Söluverðið er 530 milljónir króna. Söluandvirði sjóðanna bætist við eigið fé Landsvaka sem verður eftir í félaginu til þess að standa skil á hugsanlegum kröfum. Í kjölfar yfirfærslunnar verður rekstarleyfi Landsvaka skilað inn til Fjármálaeftirlitsins en félagið verður áfram dótturfélag Landsbankans.“