Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í morgun að Landsvaka, sem rekur verðbréfasjóði Landsbankans, sé ekki skylt að greiða viðskiptavini skaðabætur vegna rýrnunar í fjárfestingasjóðinum Peningabréf Landsbanka ISK. Stefnandi, sem var starfsmaður í Landsbankanum, krafði Landsvaka um 7,5 milljónir króna í skaðabætur vegna rýrnunar.

Hann taldi að þann 3. október 2008 hafi hlutdeildarskírteini hans í fjárfestingarsjóðnum verið að virði rúmlega 24 milljóna króna. Stjórn Landsvaka ákvað mánudaginn 6. október 2008, í miðju hruninu, að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í sjóðnum en daginn eftir setti Fjármálaeftirlitið skilanefnd yfir bankann.

Þeir sem áttu hlutdeildarskírteini í sjóðnum fengu 68,8% greitt. Stefnandi fór fram á að Landsvaki greiði honum mismun á því sem hann taldi sig eiga þann 3. október (föstudagur) og hann fékk að lokum greitt út, sem voru um 16,6 milljónir króna. Í dóminum kemur fram að stefnandi vísar til þess að hafa sent fyrirmæli um innlausn skírteina að kvöldi 5. október 2008 (sunnudeginum). Þau hafi verið móttekin af starfsmanni Landsbankans í Lúxemborg daginn eftir klukkan 07.37 og sent til afgreiðslu í baknvinnslu. Ákvörðun um að greiða ekki úr fjárfestingarsjóðnum hafi verið tekin milli klukkan 09.30 og 10 þann morgun.

„Ákvörðunin hafi ekki verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrr en kl. 11.04 og ekki auglýst opinberlega fyrr en kl. 14.03 sama dag.  Samkvæmt þessu hafi frestun innlausnar á hlutdeildarskírteinum ekki tekið gildi þegar fyrirmæli stefnanda um innlausn barst starfsmanni Landsbankans.  Og þar sem tilkynning um frestun innlausnar barst ekki Fjármálaeftirlitinu fyrr en kl. 11.04 verði að líta svo á að sjóðurinn hafi að minnsta kosti verið opin til kl. 11.04 hinn 6. október 2008.  Landsvaka hf. hafi því borið að fara að fyrirmælum stefnanda um innlausn,“ segir í dómi héraðsdóms.

Eins og fyrr segir var Landsvaki sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í niðurstöðu dómara segir: „ Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 7.561.527 kr. með tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnaði.  Fram kemur að fjárhæðin er miðuð við að gera stefnanda eins settan við slit Peningabréfa Landsbanka ISK og ef greitt hefði verið úr sjóðnum eftir dagsgengi hlutdeildarskírteina, sem síðast gilti áður en lokað var fyrir innlausn þeirra 6. október 2008. Stefnandi hefur hins vegar hvorki sýnt fram á hvernig þetta innlausnarverð hefði átt að geta haldist óbreytt eftir 6. október 2008 né sannað að stefndi hafi með saknæmum eða gáleysislegum hætti lokað fyrir innlausn þeirra“.