Landsvirkjun dregur úr fjárhagslegri áhættu og endurfjármögnunaráhættu með því að skilmálabreyta tveimur skuldabréfalánum. Fram kemur í tilkynningu Landsvirkjunar að annars vegar er um að skuldbreytingu úr evrum í dali auk þess sem innköllunarákvæði er tekið úr öðrum samningi og lokagjalddaga breytt. Breytingarnar eru mikilvægur þáttur í þeirri stefnu að draga úr áhættu tengdu lánasafni fyrirtækisins, að því er fram kemur í tilkynningu Landsvirkjunar.

Fyrri breytingin snýr að skuldbreytingu á skuldabréfi til tíu ára upp á  50 milljónir evra yfir í Bandaríkjadali. Eftir breytinguna nemur fjárhæð skuldabréfsins 68 milljónum Bandaríkjadala.

Síðari breytingin snýr að breytingu á ákvæðum skuldabréfs upp á 50 milljónir evra með árlegu innköllunarákvæði af hálfu lánveitanda fram að gjalddaga bréfsins árið 2023. Samið var um að eigandi skuldabréfsins muni afsala sér réttinum til að innkalla skuldabréfið og lokagjalddagi skuldabréfsins verði í mars 2020. Sökum innköllunarákvæðisins hefur fyrirtækið skilgreint skuldabréfið sem skammtímalán en eftir breytinguna verður það fært meðal langtímaskulda.