„Landsvirkjun er enn of skuldsett,“ segir Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar. Hann var með erindi um fjárhagsstöðu Landsvirkjunar á ársfundi fyrirtækisins sem nú stendur yfir.

Fram kemur í síðasta ársreikningi Landsvirkjunar að skuldir fyrirtækisins hafi um síðustu áramót numið rétt rúmum 2,9 milljörðum dala, jafnvirði tæpra 327 milljarða íslenskra króna.

Jónas sagði það enn of mikið og verði áfram lögð áhersla á niðurgreiðslu skulda og hagræðingar. Jónas benti á að afkoma Landsvirkjunar muni áfram ráðast af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla á sama tíma og álverð er lágt um þessar mundir. Af þessum sökum, m.a. því að Landsvirkjun gerir upp í Bandaríkjadölum, þá sé lágt vaxtastig fyrirtækinu mikilvægt.