Árið 2000 voru lög um mat á umhverfisáhrifum endurnýjuð og þeim síðan aftur breytt 2005. Þessi lög innihalda heimildarákvæði fyrir Skipulagsstofnun sem gerir henni kleift að sameina mat á tengdum framkvæmdum. Í lögunum stendur að ef fleiri en ein skyldar framkvæmdir á sama svæði eru háðar hver annarri, getur Skipulagsstofnun, að höfðu samráði við framkvæmdaaðila og leyfisveitendur, ákveðið að umhverfisáhrifin skuli metin sameiginlega.

Í greinargerð með umræddu frumvarpi segir: „Framkvæmd er háð annarri framkvæmd ef um það er að ræða að ekki verði af framkvæmdinni nema tilkomi önnur framkvæmd sem er tengd og um sé að ræða sammögnunaráhrif þessara framkvæmda.” Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir úrskurð umhverfisráðherra um að breyta afstöðu Skipulagsstofnunar hafa komið á óvart í ljósi fyrri úrskurðar vegna Helguvíkur.

„Í þessum úrskurði er meðal annars byggt á þeim forsendum að framkvæmdirnar séu algerlega háðar hver annarri þótt fyrir liggi, til dæmis af hálfu Þeystareykja ehf., að fyrirtækið ætli að virkja burtséð frá því hver kaupir rafmagnið. Úrskurðurinn er íþyngjandi fyrir framkvæmdaaðila og getur seinkað undirbúningi um meira en eitt ár, nema fundin verði sérstök leið til að flýta rannsóknum á háhitasvæðum. Á fundi framkvæmdaaðila og sveitarstjórna með skipulagsstjóra og ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins, sem haldinn var í vikunni, sagði ráðuneytisstjórinn að leitað yrði allra leiða til að koma í veg fyrir seinkun. Ef menn ætla að búa til heildarskýrslu í sameiginlegu mati áður en einstakar rannsóknir verða framkvæmdar, þá tefst þetta alveg örugglega. Ef við fáum hins vegar leyfi til að rannsaka áður en heildarmatið liggur fyrir munum við ná að vinna upp þann tíma. Landsvirkjun hefur í viljayfirlýsingu lýst yfir að við lok næsta árs verði hægt að segja til um hvort nægileg orka sé á svæðinu til að það sé áhættunnar virði fyrir Alcoa að byggja 250.000 tonna álver. Við höfum hins vegar aldrei lofað að útvega meiri orku en fyrir 250.000 tonna ver, þrátt fyrir að áhugi sé að slíku.”

______________________________________

Í helgarviðtali Viðskiptablaðsinsræðir Friðrik úrskurð umhverfisráðherra vegna álvers á Bakka, hvenær hann hyggst hætta sem forstjóri Landsvirkjunar og fleira . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .