Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar fyrir óveðtryggðar lánaskuldbindingar án ríkisábyrgðar hækka úr Baa3 í Baa2. Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar með ríkisábyrgð er óbreytt, Baa1. Horfur eru  metnar stöðugar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Samkvæmt ákvörðun Moody´s endurspeglar hækkunin að Landsvirkjun hefur sýnt fram á stöðugan rekstur. Þá bendir Moody’s á getu Landsvirkjunar til að standast breytingar á hrávörumörkuðum án þess að áhætta fyrirtækisins aukist og þann árangur sem fyrirtækið hefur náð í því að minnka áhættu tengda gengi, vöxtum og álverði. Að lokum bendir Moody’s á að eftir að fjárfestingum lýkur á árinu 2018 muni sjóðsmyndun draga verulega úr skuldsetningu fyrirtækisins.

„Landsvirkjun hefur markvisst unnið að því að draga úr markaðsáhættu fyrirtækisins sem hefur skilað sér í stöðugum rekstri," er haft eftir Herði Arnarssyni, forstjóra Landsvirkjunar í fréttatilkynningunni. „Samhliða því hefur verið unnið að lækkun skulda og byggt undir möguleika fyrirtækisins til að auka arðgreiðslur til eiganda síns, íslensku þjóðarinnar.

Landsvirkjun gaf nýlega út, fyrst íslenskra útgefenda, græn skuldabréf án ríkisábyrgðar. Þar sýndi sjöföld eftirspurn fram á að fyrirtækið hefur gott aðgengi að lánsfjármörkuðum. Það er sérstaklega ánægjulegt að Moody’s horfi til bættrar rekstrarstöðu Landsvirkjunar og áframhaldandi sterkrar stöðu fyrirtækisins, samhliða frekari lækkun skulda.”