Greining Íslandsbanka vekur athygli á hversu hagstæðra kjara Landsvirkjun nýtur um þessar mundir, ef marka megi útboðin tvö. Að því gefnu að 10 ára útgáfan hafi verið seld á pari, og að ávöxtunarkrafa þeirrar útgáfu sé 4,9% líkt og nafnvextirnir, má álykta sem svo að fyrirtækið njóti hagstæðari kjara en ríkissjóður, hvort sem miðað er við dollara eða krónur. Til að mynda var krafa 5 ára dollarabréfs ríkissjóðs 5,2% í ágústlok og er hún 5,24% í dag. Í krónum hefur sambærileg fjármögnun ríkissjóðs verið á bilinu 6,5% - 7,7% undanfarna viku. Kjör Landsvirkjunar eru því ívið hagstæðari en líkleg kjör ríkissjóðs í dollurum mælt, og mun hagstæðari en þau kjör sem ríkissjóður nýtur í krónum þessa dagana. Ekki er gott að ráða í ástæður þessa, en þó má benda á að sjóðstreymi Landsvirkjunar er að langmestu leyti í erlendri mynt, þar sem bróðurpartur teknanna er í dollurum og skuldir að mestu leyti í dollurum (39%) og evrum (41%). Lausafjárstaða fyrirtækisins er að auki nokkuð rúm og sjóðstreymi jákvætt, og LV ætti því að vera sjálfri sér nóg hvað gjaldeyri varðar næstu misserin.