Uppsafnaðar fjárfestingar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar og annarar virkjana á tímabilinu 1995 til 2008 eru komnar yfir 300 milljarða króna á verðlagi í janúar 2009. Inni í þeirri tölu er kostnaður vegna orkuflutningsmannvirkja til ársins 2004.

„Varðandi útgjöld vegna Kárahnjúkavirkjunar á þessu ári eru þau áætluð 4,5 milljarðar. Langstærsti hlutinn eru lokagreiðslur vegna verksamninga sem nú eru í gangi og bætur til vatnsréttarhafa og vextir, “ sagði Jóhann Kröyer verkefnastjóri Landsvirkjunar við kynningu á verkefnum fyrirtækisins á Útboðsþingi sl. föstudag.

„Þau verkefni sem verða í gangi í sumar er stífla í gljúfrinu fyrir neðan Kárahnjúkastíflu. Þá þurfa þeir líka að ganga frá Hraunárveitusvæðinu. Vélaverktakar eru í frágangsvinnu og Austurafl er í ýmiskonar frágangsvinnu m.a. í aðgöngum við Axará."

Jóhann segir að fyrirhugað sé að bjóða út þrjú verkefni við Kárahnjúka á árinu. Þar er gerð listaverks við Kárahnjúkastíflu sem tilboð verða væntanlega opnuð í nú í þessari viku. Þá eru tvo lítil verkefni sem eru ýmiskonar frágangur í Fljótsdal og á efra vinnusvæði sem verða boðin út í apríl. Áætlað er að þessi þrjú verkefni kosti um 150 milljónir króna.

Athugasemd:

Í glærukynningu á Útboðsþingi mátti skilja að uppreiknaður kostnaður vegna Kárahnjúkvirkjunar einnar ásamt orkuflutningsmannvirkjum væri kominn yfir 300 milljarða króna. Landsvirkjun hefur gert athugasemd við þá framsetningu og segir að kostnaður vegna Kárahnjúkavirkjunar fyrir gengishrunið í haust hafi verið komin í 140 milljarða króna. Uppsöfnuð fjárfesting upp á 300 milljarða króna feli því líka í sér aðrar virkjanir á fyrrnefndu tímabili. Beðist er velvirðingar á þessum misskilningi og leiðréttist þetta hér með.