Landsvirkjun hefur keypt 10% hlut í sprotafyrirtækinu Sifmar sem stefnir á framleiðslu á íslenskum barnamat. Sifmar var stofnað snemma á árinu af Sigrúnu Önnu Magnúsdóttur fjármálastjóra og Vaka Mar Valsdóttir framkvæmdastjóra félagisins. Fyrirtækið tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup Orkídeu, þar sem ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er bakhjarl, fyrr á þessu ári sem varð kveikjan af samstarfi fyrirtækjanna.

„Hugmyndafræði fyrirtækisins gengur fyrst og fremst út á að nýta betur íslenskt grænmeti og ávexti og vinna það áfram með íslenskum orku- og vatnsauðlindum. Stefnt er að því að framleiða Krakkakreistur, sem verður hentugur barnamatur í pokum og Krakkakropp, barnanasl sem bráðnar í munni,“ segir í tilkynningu.

Sigrún Anna og Vaka kynntust í matvælafræði í Háskóla Íslands. Í tilkynningunni segir að þær séu báðar mæður og höfðu lengi furðað sig á að ekki væri framleiddur íslenskur barnamatur miðað við þá grænu orku sem hér er að finna, hreint vatn og gott hráefni. Vöruþróun Sifmar er sagt lokið og stefnt er á að fyrstu vörur komi á markað í lok næsta árs. Fyrirtækið hefur m.a. fengið styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna, Tækniþróunarsjóði og Matvælasjóði en tekur nú þátt í markaðshraðlinum Til sjávar og sveita hjá Icelandic Startup.

„Landsvirkjun hefur nú þegar reynst okkur dýrmætur bakhjarl og við hlökkum til að vaxa og starfa áfram með þau okkur við hlið,“ segja Sigrún Anna og Vaka Mar í tilkynningunni.