Landsvirkjun hefur undirritað viðmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð – UN Global Compact og skuldbindur sig til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Með undirrituninni skuldbindur Landsvirkjun sig til að skila árlegri samantekt um framvindu og árangur á sviði samfélagsábyrgðar. Global Compact eru útbreiddustu viðmið um samfélagsábyrgð í heiminum, en rúmlega 8.000 fyrirtæki og stofnanir um allan heim hafa undirritað Global Compact, að því er segir í tilkynningu.

Aðild Landsvirkjunar að Global Compact er í framhaldi af innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð sem fyrirtækið hefur unnið að undanfarin ár.

„Landsvirkjun hefur frá stofnun lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins. Með undirritun Global Compact tökum við enn eitt skrefið og vonumst til þess að aðildin styðji okkur í því að gera áherslur og aðgerðir okkar enn sýnilegri og markvissari,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir Landsvirkjun setti sér stefnu um samfélagsábyrgð á haustdögum 2011 og hefur síðan unnið að innleiðingu og framkvæmd stefnunnar í fyrirtækinu. Með stefnunni hefur Landsvirkjun einsett sér að starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum, vinna með ábyrgum viðskiptavinum og birgjum, leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, eiga gott samstarf við samfélagið, stuðla að heilbrigði og öryggi starfsfólks og vinna markvisst að miðlun þekkingar og nýsköpun.