Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar segir að fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins hafi aukist á síðustu árum. Segir hann að arðgreiðslugeta fyrirtækisins sé nú um tíu til tuttugu milljarðar á ári, en jafnframt væri mögulegt að greiða allt að 110 milljarða króna á árunum 2020 til 2026.

Hörður segir að síðustu sex ár hafi megináherslan verið á að greiða niður skuldir, og hafi þær verið greiddar niður um hundruð milljarða. Jafnframt hafi verið fjárfest fyrir aðra hundrað milljarða án þess að lántaka hafi þurft að koma til að því er RÚV greinir frá.

Tvær nýjar virkjanir bætast við

„Það sem mun hafa mikil áhrif á arðsemina er að við erum að fá tvær nýjar virkjanir í rekstur, sem koma í rekstur seinna á þessu ári og svo á næsta ári,“ segir Hörður. „Skuldir voru ekki auknar á sama tíma, það voru engin lán tekin. Þannig að þær koma inn, munu byrja að framleiða orku fyrir nýja viðskiptavini og bara hagvöxtinn í samfélaginu, en það er enginn kostnaður á móti.“

Hörður segir að þó andstæða aukist við stóriðju meðal almennings sé mikilvægt að skoða fjölbreytileikann, en með nýjum stórnotendum eins og kísilmálmverksmiðjum sem og gagnaverum sem hafi tvö- eða þrefaldað eftirspurn sína upp á síðkastið. Eftirspurnin þar sé meiri en fyrirtækið nái að anna.

Haustfundurinn stendur yfir milli 8:30 og 10

Nú stendur yfir opinn haustfundur Landsvirkjunar í Silfurbergi í Hörpu undir yfirskriftinni „Endurnýjanleg orka er verðmætari“. Fundurinn hefst stundvíslega kl. 8.30 og honum lýkur kl. 10, hægt er að horfa á útsendingu frá fundinum hér . Á fundinum verða sýnd myndbönd úr rekstri Ljósafossstöðvar (sem hefur verið 80 ár í rekstri), Kröflustöðvar (sem hefur verið 40 ár í rekstri) og Fljótsdalsstöðvar (sem hefur nú verið nær 10 ár í rekstri).

Landsvirkjun hefur frá upphafi unnið endurnýjanlega orku. Vitundarvakning um umhverfis- og loftslagsmál á heimsvísu hefur aukið verulega verðmæti slíkrar raforku. Á fundinum munu sérfræðingar okkar fjalla um þessi verðmæti frá ýmsum hliðum. Greint verður frá því hver áhrif loftslagsbreytinga hafa verið á orkuvinnslu og nýtingu íslenska kerfisins, hvernig endurnýjanleg orka er orðin eftirsóttari um allan heim og hvernig nýta má hana á ábyrgan og sjálfbæran hátt.

Dagskrá fundarins:

  • Hörður Arnarson forstjóri - Hlutverk Landsvirkjunar - fjárhagsleg staða - endurnýjanleg orka
  • Úlfar Linnet forstöðumaður rannsóknadeildar - Áhrif bráðnunar jökla á íslenska orkukerfið
  • Ásbjörg Kristinsdóttir yfirverkefnisstjóri stækkunar Búrfellsvirkjunar - Bætt nýting auðlindar við Búrfell
  • Myndband: Ljósafossstöð - Endurnýjanleg orka í 80 ár
  • Einar Mathiesen framkvæmdastjóri orkusviðs - Hvernig tryggjum við endingu aflstöðva?
  • Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir verkefnisstjóri á samskiptasviði - Samspil orku og ferðamála
  • Myndband: Kröflustöð - Vagga jarðvarma á Íslandi í 40 ár
  • Valur Knútsson yfirverkefnisstjóri Þeistareykjavirkjunar - Sjálfbær nýting jarðvarma á Þeistareykjum
  • Ragnheiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri - Kolefnishlutlaus Landsvirkjun árið 2030
  • Myndband: Fljótsdalsstöð - Orkuvinnsla og sjálfbærni í 10 ár
  • Þórólfur Nielsen forstöðumaður viðskiptagreiningar - Endurnýjanleg raforka á heimsvísu
  • Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs - Markaðssetning endurnýjanlegrar orku
  • Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri - Endurnýjanleg orka er verðmætari