Landsvirkjun greiðir íslenska ríkinu 50 milljónir dollara, jafnvirði 6,34 milljarða króna í arð vegna starfsemi félagsins á síðasta ári. Þetta var samþykkt á aðalfundi félagsins í dag. Fyrir ári greiddi félagið 10 milljarða króna í arð til ríkisins.

Þá hefur Jónas Guðmundsson verið endurkjörinn formaður stjórnar Landsvirkjunar. Með honum í stjórn Landsvirkjunar sitja  Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.

Hagnaður Landsvirkjunar nam 79 milljónum dollara árið 2020 samanborið við 115 milljónir dollara árið áður og lækkaði því um þriðjung. „Þar höfðu mest áhrif minni raforkusala, sértækar aðgerðir fyrir viðskiptavini og tenging raforkuverðs við álverð og Nord Pool verð,“ var haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningu frá Landsvirkjun um ástæðu þess að hagnaður félagsins lækkaði á milli ára.