Það stefnir í verulegan samdrátt í fjárfestingum Landsvirkjunar, sem hyggur ekki á neinar nýjar virkjunarframkvæmdir á næstu árum. Hins vegar hyggjast önnur orkudreifi- og veitufyrirtæki auka nokkuð við fjárfestingar sínar á næstu árum. Ráðgert er að fjárfestingar næstu þriggja ára verði áþekkar og fjárfestingar síðustu þriggja ára, sem námu um 150 milljörðum króna. Landsvirkjuna hefur fjárfest fyrir um milljarð dollara undanfarinn áratug. Síðustu virkjunarverkefni Landsvirkjunar í bili voru Þeistareykjavirkjun og Búrfellsstöð II. Þeistareykjavirkjun var gangsett í nóvember 2017. Orkan frá henni er nýtt til að knýja kísilver PCC á Bakka við Húsavík sem gangsett var í apríl fyrir ári. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun nema áætlaðar fjárfestingar félagsins á árunum 2019-2021 einungis átta milljörðum króna. Landsvirkjun hyggst í meira mæli nýta hagnað af virkjunum sínum í arðgreiðslur á næstu árum.

Mörg verkefni hjá HS Orku

HS Orka hyggst aftur á móti bæta nokkuð í fjárfestingar sínar á næstu árum. Eftir að hafa fjárfest fyrir um tvo milljarða króna á á ári undanfarin ár er stefnt á 8-9 milljarða króna fjárfestingar á næstu þremur árum. Því er áætlað að heildarfjárfesting HS Orku fram til 2021 nemi ríflega 25 milljörðum króna. Á þessu ári mun bygging Brúarvirkjunar standa yfir en það er 9,9MW virkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum. Þá er fram undan stækkun Reykjanesvirkjunar um að minnsta kosti 30MW sem er ráðgert að muni standa fram til 2021 hið minnsta. Þá er stefnt að endurnýjun tveggja orkuverseininga í Svartsengi auk annarra verkefna við Orkuver Svartsengi. Auk þess vinnur HS Orka ásamt Vesturverki að Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum sem verður 55MW virkjun ef af verður. Einnig er VesturVerk með í undirbúningi þrjár aðrar virkjanir við Ísafjarðardjúp en þær eru Skúfnavatnavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun.

55 milljarða fjárfestingar OR

Orkuveita Reykjavíkur er það orkufyrirtæki sem stendur að mestum fjárfestingum þessi misserin. Félagið stefnir á að fjárfesta fyrir um 18-19 milljarða á ári næstu þrjú árin, eða fyrir um 55 milljarða króna samanlagt. Sé tímabilið frá 2015 skoðað stefnir í að Orkuveita Reykjavíkur leggist í um 100 milljarða króna fjárfestingar á sjö ára tímabili, frá 2015 til 2021. Orkuveitan dró úr og frestaði fjárfestingum á meðan Planið svokallaða stóð yfir, sem var aðgerðaráætlun til að bæta fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur. OR telur aðgerðaráætlun Plansins hafa heppnast og nú sé svigrúm til frekari fjárfestinga. Orkuveitan hyggst stækka varmastöðvar sínar á Hellisheiði. Auk þess er stefnt að því að bora vinnsluholur fyrir virkjanir Orku náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Þá er stefnt að endurnýjun hitaveitulagna á milli Deildartungu og Akraness.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .