*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 22. nóvember 2019 15:32

Landsvirkjun hagnaðist um 2,5 milljarða

Hagnaður Landsvirkjunar dróst saman um ríflega 40% á ársfjórðungnum. Tekjutap vegna stöðvunar kerskála.

Ritstjórn
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Landsvirkjun hagnaðist um 20,5 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi, eða sem nemur 2,5 milljörðum íslenskra króna, sem er ríflega 41% samdráttur frá sama tíma fyrir ári. Ef horft er á hagnaðinn á fyrstu 9 mánuðum ársins var samdrátturinn óverulegur og nam hann 89 milljónum dala.

Tekjur félagsins á ársfjórðungnum drógust saman um nærri 13%, á tímabilinu, og fóru úr 129,3 milljónum dala í 112,7 milljónir dala, meðan rekstrargjöldin lækkuðu um 4,8%, úr 66,6 milljónum í 63,4 milljónir dala.

Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar dróst því saman um ríflega fimmtung milli ára, eða úr 62,7 milljónum dala í 49,3 milljónir dala.

Ef horft er til fyrstu níu mánaða ársins sést að:

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 127,6 milljónum USD (15,8 ma.kr.), en var 133,4 milljónir USD á sama tímabili árið áður og lækkar því um 4,4% milli tímabila.
  • Hagnaður tímabilsins var 89,0 milljónir USD (11,0 ma.kr.) en var 89,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 372,4 milljónum USD (46,2 ma.kr.) og lækka um 26,4 milljónir USD (6,6%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 171,8 milljónir USD (21,3 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok september 1.712,8 milljónir USD (212,4 ma.kr.). 
  • Handbært fé frá rekstri nam 222,4 milljónum USD (27,6 ma.kr.) sem er 0,1% lækkun frá sama tímabili árið áður.

Eigið fé félagsins hækkaði um 2,2% og nemur nú rétt rúmlega 2,2 milljörðum dala. Skuldirnar lækkuðu um 7,1%, úr tæplega 2,3 milljörðum dala í rúmlega 2,1 milljarð dala. Þar með hækkaði eiginfjárhlutfallið um 2,4 prósentustig, í 51%.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir rekstur aflstöðva félagsins hafa gengið almennt vel á fyrstu níu mánuðum ársins. „Gengið hefur vel að bæta nýjustu aflstöðvunum Búrfellsstöð II og Þeistareykjastöð við raforkukerfið og hlaut sú síðarnefnda nýlega gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga. Ný og endurnýjuð Gufustöð í Bjarnarflagi hefur verið tekin í notkun og nýtir hún gufumagnið betur en sú eldri, sem er í samræmi við stefnu okkar um bætta nýtingu auðlindarinnar. Horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar í upphafi vatnsárs 1. október eru góðar,“ segir Hörður.

„Afkoma þriðja ársfjórðungs litast þó af erfiðum ytri aðstæðum, þar sem afurðaverð stórra viðskiptavina hefur verið lágt og þróun álverðs hefur haft neikvæð áhrif á tekjur. Þá varð tekjutap vegna tímabundinnar stöðvunar þriðja kerskálans hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík upp á um 10 milljónir bandaríkjadala (1,24 milljarða króna) og sér þess merki í rekstrarniðurstöðum fjórðungsins.

Þrátt fyrir þetta hélt efnahagur fyrirtækisins áfram að styrkjast á þriðja ársfjórðungi og þau ánægjulegu tíðindi bárust nú í nóvember að Moody's staðfesti bætta fjárhagsstöðu Landsvirkjunar með því að hækka lánshæfiseinkunn fyrirtækisins. Nettó skuldir lækkuðu um tæplega 172 milljónir bandaríkjadala (21 milljarð króna) á fyrstu níu mánuðum ársins. Sjóðstreymi er áfram sterkt í rekstri Landsvirkjunar, en handbært fé frá rekstri nam 222,4 milljónum bandaríkjadala (27,6 milljörðum króna) á fyrstu níu mánuðum ársins, og var því að mestu varið í að lækka skuldir.“