Hagnaður Landsvirkjunar árið 2014 nam 78,4 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar 10,2 milljörðum íslenskra króna. Árið 2013 tapaði Landsvirkjun 5 milljörðum króna og er þetta því töluverður viðsnúningur. Rekstrartekjur námu 438,2 milljónum Bandaríkjadala eða 57 milljörðum króna sem er 3,6% hækkun frá árinu áður. EBITDA nam 332,2 milljónum Bandaríkjadala eða 43,2 milljörðum króna sem er 0,9% hækkun frá árinu áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Nettó skuldir félagsins lækkuðu um 238,7 milljónum Bandaríkjadala eða 31 milljarði króna á milli ára og voru í árslok 284,8 milljarðar króna. Handbært fé frá rekstri nam 233,8 milljónum Bandaríkjadala eða 30,4 milljörðum króna sem er 9,5% lækkun frá árinu áður. Fjárfestingar á árinu námu 88,3 milljónum Bandaríkjadala eða 11,5 milljörðum króna.

Handbært fé frá rekstri eftir fjárfestingar upp á 18,9 milljarða króna var nýtt til lækkunar skulda og greiðslu arðs til eigenda.

„Rekstur Landsvirkjunar gekk vel á árinu 2014 þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi, einkum vegna lágs álverðs og takmörkunar á afhendingu raforku vegna slakrar vatnsstöðu. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var um 19 milljarðar króna, hækkaði um 20% frá fyrra ári og hefur ekki verið meiri áður. Fyrirtækið byggir á góðum grunni hjá starfsmönnum í orkuvinnslu um land allt á 50 ára afmælisári þess og árangur af öflugri fjármálastjórn ásamt auknu markaðsstarfi og rannsóknarstarfi er þegar farinn að skila sér. Nettó skuldir halda áfram að lækka og hafa nú lækkað um rúma 80 milljarða króna frá árslokum 2009. Með aukinni fjármunamyndun vegna aukinnar orkusölu, hærra raforkuverðs og lægri skuldsetningar munu tækifæri til arðgreiðslna aukast verulega á næstu árum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.