Landsvirkjun hagnaðist um 12,6 milljón dollara eða um 1,48 milljarða króna, miðað við meðalgengi tímabilsins, á þriðja ársfjórðungi. Hagnaðurinn hélst því nokkuð stöðugur milli ára á þriðja ársfjórðungi en hann nam 12,4 milljón dollurum á tímabilinu í fyrra.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar á þriðja ársfjórðungi námu rúmum 100 milljón dollara — samanborið við 98,2 milljón dollara á sama tíma í fyrra. Þar af voru tekjur frá raforkusölu 82,8 milljón dollarar á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Rekstrargjöld samstæðunnar námu 59 milljón dollara á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Rekstrarhagnaður samstæðunnar var því tæpar 41,2 milljónum dollara á þriðja ársfjórðungi.

Níu mánaðar uppgjör

Hagnaður samstæðunnar fyrstu níu mánuði ársins nam 5,4 milljörðum króna eða 47,5 milljónir dollara en var 76,3 milljónir dollara á sama tímabili árið áður. „Tekjulækkun skýrir hér hluta lækkunar milli tímabila en stærstan þátt á breyting á óinnleystum fjármagnsliðum,“ segir í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Nettó skuldir lækkuðu um 11,7 milljónir USD eða 1,3 milljarða króna frá áramótum og voru í lok september 1.973,8 milljónir dollara eða 223 milljarða króna. Handbært fé frá rekstri í lok tímabilsins nam 19,5 milljörðum króna sem er 11,2% lækkun frá sama tímabili í fyrra.

Álverð hélt áfram að lækka

Haft er eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að samstæðan megi una vel við afkomu fyrstu níu mánaða ársins. „Álverð hélt áfram að lækka; var 9% lægra en á sama tímabili árið áður og sögulega séð mjög lágt, en hluti raforkusamninga okkar er tengdur þróun álverðs og hafði það neikvæð áhrif á tekjur.

Fyrirtækið vinnur nú að byggingu tveggja virkjana, á Þeistareykjum og við Búrfell, en samhliða því halda þó hreinar skuldir áfram að lækka, sem endurspeglar sterka fjármunamyndun. Ánægjulegt er að sjá að lækkun skulda og bætt lánskjör eru að skila sér í umtalsverðri lækkun fjármagnsgjalda.

Nú standa yfir endursamningar við sölufyrirtæki rafmagns á heildsölumarkaði en meðalverð Landsvirkjunar til þeirra hefur nánast staðið í stað síðustu ár. Ekki eru horfur á að það breytist á næsta ári,“ er haft eftir Herði.