Landsvirkjun hagnaðist um 17,6 milljónir dollara, andvirði 2,4 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi 2020 og dróst hagnaðurinn saman um 17,5% milli ára. Á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist Landsvirkjun um 61 milljón dollara og dróst saman um þriðjung milli ára.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði á fyrstu níu mánuðum ársins nam ríflega 92 milljónum dollara og dróst saman um 28% milli ára. Rekstrartekjur drógust saman um 12% milli ára á téðu tímabili og námu 328 milljónum dollara, jafnvirði 45,6 milljarða króna. Handbært fé frá rekstri dróst saman um nær fjórðung milli ára og nam tæplega 24 milljörðum króna.

Eignir Landsvirkjunar námu ríflega 4,3 milljörðum dollara í lok þriðja ársfjórðungs jafngildi 590 milljörðum króna. Skuldir námu 289 milljörðum króna og eigið fé 302 milljörðum. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 236 milljónum dollara og dróst saman um 16% milli ára.

Viðskiptavinir Landsvirkjunar hafa fengið tímabundin aflsláttarkjör vegna samdráttar í eftirspurn og sömuleiðis jókst rekstrar- og viðhaldskostnaður á fyrstu níu mánuðum ársins milli ára. Kostnaðaraukning er sögð vera aðallega vegna kostnaðar í flutningskerfinu vegna óveðurs í byrjun árs.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Áfram setja efnahagsástandið og veirufaraldurinn mark sitt á rekstur Landsvirkjunar. Skórinn kreppir að hjá viðskiptavinum fyrirtækisins, með minnkandi eftirspurn og lækkandi afurðaverði. Eftir mikla lækkun skulda á síðasta áratug er Landsvirkjun þó í ágætri stöðu til að standa af sér storminn og standa með viðskiptavinum sínum á þessum krefjandi tímum. Eins og komið hefur fram höfum við veitt stórnotendum tímabundna afslætti, en einnig höfum við lagt okkar af mörkum í átaki atvinnulífsins í efnahagsmálum, með því að ráðast í ýmsar framkvæmdir, endurbætur og rannsókna- og þróunarverkefni víðs vegar um landið.

Það er ánægjulegt að þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur okkur áfram tekist að lækka nettó skuldir á fyrstu níu mánuðum ársins, en þær eru nú tæpum átta milljörðum króna lægri en um síðustu áramót. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er mælikvarðinn sem við lítum gjarnan til þegar við metum rekstur fyrirtækisins, lækkar um 28% miðað við sama tímabil árið áður, en hann nam 92,4 milljónum dollara.“