Hagnaður Landsvirkjunar nam um 31 milljón Bandaríkjadollara, eða um 3,8 milljörðum íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi og lækkar um 6,5% frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í fjórðungsuppgjörði Landsvirkjunar .

Velta Landsvirkjunar á tímabilinu nam um 135,8 milljónum Bandaríkjadollara, eða sem nemur um 16,8 milljörðum króna. Þá var hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði um 6,3 milljarðar króna og hækkar um 9% frá sama tímabili í fyrra. Þá voru áhrif heimsfaraldursins á rekstur Landsvirkjunar umtalsvert minni á þessum ársfjórðungi en á síðasta ári.

Eignir Landsvirkjunar námu um 543,5 milljörðum króna í lok fjórðungsins og þá nam eigið félagsins um 279,2 milljörðum og er eiginfjárhlutfall félagsins því um 51%. Nettó skuldir voru um 203 milljarðar króna í lok fjórðungsins og minnka um 8,5 milljarða frá áramótum.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að ákveðið hafi verið á aðalfundi 15. apríl síðastliðnum að arður að fjárhæð 50 milljónum Bandaríkjadollara, 6,2 milljörðum króna, yrði greiddur út. Þá kemur einnig fram að fjármálaráðherra og ferðamálaráðherra undirrituðu í febrúar viljayfirlýsingu við eigendur Landsnet ehf. um kaup ríkisins á hlutum í félaginu en Viðskiptablaðið greindi frá þessu fyrr á árinu.

Í ávarpi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, segir að málmiðnaðurinn hafi aukið raforkunotkun sína upp á síðkastið og hefur eftirspurn eftir málmum náð fyrri styrk. Þá hefur sala til gagnavera aukist mikið upp á síðkastið og stefnir allt í metsölu til þeirra á þessu ári.