Í sex mánaða uppgjöri Landsvirkjunar, sem nær yfir tímabilið 1. janúar til 30. júní kemur fram að hagnaður Landsvirkjunar nam 4,2 milljörðum króna eða 34,8 milljónir dollara. Á sama tíma í fyrra var hagnaður Landsvirkjunar um 63 milljónir dollara.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að lækkunin stafi að mestu af breytingu á óinnleystum fjármagnsliðum. Tengist sú lækkun gengisbreytingum og á lækkun á álverði.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 25,2 milljörðum íslenskra króna og lækka þar með um 4,1% frá sama tímabili í fyrra.

EBITDA fyrirtækisins nam 18,9 milljörðum króna eða 155,2 milljónum dollara og stendur EBITDA hlutfall í 75,0% af tekjum.

Nettó skuldir Landsvirkjunar lækkuðu um 4,8 milljarða króna frá áramótum og voru í lok júní 237,4 milljarðar króna, samkvæmt tilkynningu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur afkomuna góða miðað við krefjandi ytra umhverfi. Tekur hann einnig fram að árshlutinn var sá fjórði besti frá upphafi.