*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 28. febrúar 2020 13:05

Landsvirkjun hagnast um 13,6 milljarða

Landsvirkjun tapaði tveimur milljörðum vegna stöðvunar kerskála hjá Rio Tinto í Straumsvík. Lægra álverð rýrði tekjur félagsins.

Ritstjórn
Hörður Arnarson, forstjóri Landvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Landsvirkjun hagnaðist um 112,7 milljónir dollara, um 13,6 milljarða króna, miðað við 121 milljón dollara árið 2018.

Tekjutap félagsins vegna stöðvunar kerskála í álveri Rio Tinto í Straumsvík eftir að ljósbogi myndaðist í álverinu, var 16 milljónir dollara, jafnvirði um tveggja milljarða króna. Þá rýrði óveðrið í desember afkomu Landsnets en Landsvirkjun á 64,7% hlut í Landsneti. Lágt álverð rýði einnig tekjur félagsins en raforkusamningur við Alcoa er tengdur álverði, og þá var raforkusamningur við Norðurál einnig tengdur álverði þar til nýr raforkusamningur tók gildi í byrjun nóvember. Rekstrartekjur námu 509,6 milljónum dollara, um 62 milljörðum króna og lækkuðu um 24,3 milljónir dollara eða 4,6% frá sama tímabili árið áður.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 173,3 milljónum dollara, um 21 milljarði króna en var 184,1 milljón dollara á sama tímabili árið áður og lækkar því um  5,9% milli ára. Þá lækkuðu nettó skuldir um 23,4 milljarða króna og voru í árslok 205 milljarðar króna. Handbært fé frá rekstri nam 295,8 milljónum dollara, um 36 milljörðum króna og var nær óbreytt frá árinu áður. Arðsemi eigin fjár lækkaði úr 5,9% í 5,2% á milli ára.

„Rekstur Landsvirkjunar litaðist af erfiðum ytri aðstæðum á árinu 2019, eins og árið áður. Afurðaverð stórra viðskiptavina var lágt og hafði það neikvæð áhrif á tekjur, enda er hluti samninga enn bundinn við þróun álverðs. Þá varð tekjutap upp á um 16 milljónir dollara af stöðvun kerskála þrjú hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík. Þótt óveðrið í desember hafi ekki valdið truflunum í rekstri aflstöðva Landsvirkjunar hafði það áhrif á rekstur Landsnets, sem er hluti af samstæðu Landsvirkjunar. Atburðarásin í desember staðfestir að brýn þörf er á því að styrkja flutningskerfi raforku á Íslandi," er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningu.

„Áfram gekk vel að lækka nettó skuldir, sem eru nú komnar niður í 1.691 milljón Bandaríkjadala og lækkuðu um 193 milljónir á árinu. Matsfyrirtækið Moody's hækkaði lánshæfiseinkunn fyrirtækisins á árinu og S&P Global Ratings breytti horfum á sinni einkunn úr stöðugum í jákvæðar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til við mat á grunnrekstri fyrirtækisins, var ásættanlegur miðað við aðstæður, en lækkaði um 5,9% milli ára," segir Hörður ennfremur.

Stikkorð: Landsvirkjun Rio Tinto