Í viðtali Viðskiptablaðsins í dag við Stefán Pétursson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, kemur fram að Landsvirkjun er fjármögnuð til loka árs 2010. Sú fjármögnun byggist á fjármunum sem nú þegar eru á reikningum félagsins að viðbættu því fjármagni sem reksturinn skilar auk erlends veltiláns sem Landsvirkjun hefur tryggt sér aðgang að.

Umrætt veltilán er upp á 400 milljónir Bandaríkjadala og byggist á samningi við nokkra af stærstu bönkum heims, svo sem Citigroup, Barclay's, Sumitomo, Société Générale, SEB og fleiri.   "Allt þetta gerir það að verkum að við erum með nægt lausafé og þurfum ekki að fara á lánamarkað fyrr en á árinu 2011, ef allt reynist lokað þangað til. Þetta er öfundsverð staða sem fá fyrirtæki í heiminum eru í um þessar mundir. Landsvirkjun hefur alltaf beitt þeirri stefnu að taka lán þegar markaðurinn er hagstæður en ekki þegar markaðsaðstæður eru erfiðar. Til að geta beitt slíkri stefnu verður að vera aðgangur að lausafé ef markaðir lokast tímabundið. Þess vegna höfum við um árabil verið með aðgang að veltiláni eins og þessu," sagði Stefán.   Fyrir þetta veltilán greiðir Landsvirkjun 4,5 punkta ofan á Libor-vexti sem hækkar upp í 7 punkta (0,07%) þegar dregið er á lánið. Að sögn Stefáns verður þetta lán ekki tekið af Landsvirkjun en um það var samið árið 2005 og þá til sjö ára þannig að það rennur út árið 2012. Hægt er að draga á lánið með fimm daga fyrirvara. Stefán fullyrti að fáir ef nokkrir hefðu aðgang að láni á betri kjörum en þessum í dag.