Ört lækkar nú í Hálslóni sem er aðal forðabúr Kárahnjúkavirkjunar. Fram kemur á vefsíðu Landsvirkjunar að ferðalangar um Snæfellsöræfi hafi tekið eftir að vatnsborð í Hálslóni er sé mun lægra nú en í fyrra vetur. Því velti menn fyrir sér hvort virkjunin sé að verða vatnslaus. Landsvirkjun segir þetta þó eðlilegt og samkvæmt rekstaráætlun Fljótsdalsstöðvar.

Ástæðan fyrir hraðri lækkun lónsins er að Fljótsdalsstöð framleiðir nú raforku með fullum afköstum. Eru breytingar á vatnsborði Hálslóns því meiri en í fyrra vetur.

Í vetur hefur vatnshæð Hálslóns verið í fullu samræmi við rekstraráætlanir Landsvirkjunar. Um miðjan mars var vatnshæð í lóninu komin niður í um 596,5 metra yfir sjávarmáli (m. y.s.) en fullt stendur yfirborð lónsins í 625 m.y.s.

Samkvæmt áætluninni þá er gert ráð fyrir að lægsta vatnsstaða í vor verði um 580 m y.s. Sú áætlun stendur enn. Þar er einnig gert ráð fyrir að Hálslón fyllist í lok júlí. Staðan í öðrum lónum Landsvirkjunar er ágæt. Vatnshæð Þórisvatns er nú 570.3 m y.s, sem er heldur hærra en gert var ráð fyrir. Þá er vatnshæð Blöndulóns 470,7 m y.s sem er heldur lægra en gert var ráð fyrir. Í heild er miðlunarforðinn í meðallagi miðað við árstíma þó hann sé verulega lægri en á sama tíma í fyrra.