Landsvirkjun og Þingeyjarsveit hafa náð samkomulagi um kaup Landsvirkjunar á 4,0 % hlut Þingeyjarsveitar í einkahlutafélaginu Þeistareykjum ehf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

„Eftir kaupin á Landsvirkjun rúmlega 96,7% hlut í félaginu, Orkuveita Húsavíkur 3,2% og Þingeyjarsveit 0,087%. Kaupverðið eru tæpar 2 milljónir bandaríkjadollara.

Þeistareykir ehf. hafa frá árinu 2001 staðið að rannsóknum á möguleikum jarðhitasvæðisins að Þeistareykjum til jarðhitanýtingar. Félagið hefur fjárfest umtalsvert í því skyni. Meðal annars hafa verið boraðar sex djúpar rannsóknarholur frá þremur borteigum, en samtals afkasta holurnar gufu sem jafngildir um 45 MW raforkuframleiðslu. Vísbendingar eru um að á Þeistareykjum sé veruleg framleiðslugeta til viðbótar en jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er talið vera eitt af stærri jarðhitakerfum Íslands. Þeistareykir ehf. munu áfram stunda rannsóknir á svæðinu og er gert ráð fyrir að félagið fjárfesti í rannsóknum og öðrum undirbúningsframkvæmdum vegna uppbyggingar raforkuvinnslu fyrir allt að 720 milljónir króna á árinu 2011.“