Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að fyrirtækið sé búið að sýna fram á að það sé komið í gegnum „skaflinn“ sem blasti við þegar hrunið varð. Landsvirkjun er með umtalsverða endurfjármögnunarþörf í lok árs 2012.

Hörður segir að nú sé búið að tryggja þessa endur fjármögnun. „Við höfum alltaf vitað að staða fyrirtækisins væri sterk og við höfum sýnt fram á afar sterka stöðu í erfiðu ytra umhverfi,“ sagði Hörður í samtali við Viðskiptablaðið.

Landsvirkjun hefur aldrei verið með sterkara tekjuflæði en nú. Þegar frá hafði verið dreginn allur kostnaður, vextir, rekstur og fjárfesting, hafði Landsvirkjun um 85 milljónir dollara, um 10 milljarða króna, í lausu fé á fyrstu sex mánuðum ársins.