Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, segir stjórn félagsins hafa lengt umsóknarfrest í forstjórastarf fyrirtækisins meðal annars vegna þess að fyrri umsóknarfrestur hafi þótt of knappur.

„Við höfðum heyrt að mönnum þótti fyrri umsóknarfrestur of knappur á þessum tíma árs, rétt eftir sumarleyfi. Við höfðum einnig heyrt að margir teldu að það væri búið að ráðstafa þessu starfi. Aðalatriðið í okkar huga er að fá sem flestar og bestar umsóknir og til að hafa allt á hreinu fannst okkur eðlilegt að framlengja frestinn um tvær vikur,“ segir hann.

Upprunalegur umsóknarfrestur var 12. september, en núna er hann settur 26. september. Spurður hvort einhver hafi sótt um segir, Ingimundur svo vera.

„Já, umsóknir hafa borist. Við höfum hins vegar ekki farið ofan í saumana á því. Capacent heldur utan um þetta. Ég veit ekki nákvæmlega hversu margar umsóknir hafa borist. Aðalatriðið er að fá sem flestar,“ segir hann.

Óvíst hvenær nýr forstjóri tekur við

Ekki er ákveðið hvenær nýr forstjóri mun taka við.

„Það ræðst meðal annars að því hvenær nýr forstjóri getur losnað. Þetta verður væntanlega gert í samráði við nýja forstjórann og þann sem er að hætta. Menn þurfa vanalega þrjá mánuði til að hætta störfum.“ Ingimundur segir ekki ákveðið til hversu langs tíma verður ráðið í forstjórastarfið.

Það verði ákvarðað í samráði við nýjan forstjóra. Friðrik Sophusson, fráfarandi forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í sumar að hann hygðist láta af störfum fljótlega eftir að hann yrði 65 ára í október næstkomandi.