Alls sóttu 35 einstaklingar um starf forstjóra Landsvirkjunar sem auglýst var í júlí, en umsóknarfrestur rann út. 20. júlí. Stjórn Landsvirkjunar ákvað nú að ráða Hörð Arnarson til starfans, en nöfn annarra umsækjenda fást ekki uppgefin. Skýtur það nokkuð skökku við miðað við yfirlýsingar fulltrúa ríkisstjórnarinnar um að allt eigi nú að vera uppi á borðum.

Starfið var einnig auglýst 1. september 2008 og þá voru umsækjendur 55 talsins, en ákveðið að ráða Friðrik Sófusson áfram tímabundið þrátt fyrir fjölda umsækjenda.

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar og fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, segir að stjórn félagsins hafi að þessu sinni ákveðið að heita umsækjendum trúnaði þannig að nöfn þeirra verða ekki gefin upp. Hún sagðist telja að allur gangur væri á því hvort opinber félög beittu slíkum trúnaði við mannaráðningar.

„Við ákváðum bara að gera þetta svona, en eflaust er þetta upp og ofan. Listinn er því trúnaðarmál,” sagði Bryndís. Hún telur fulla heimild í lögum til að ráða í starfið með þessum hætti.

Í lögum um Landsvirkjun segir reyndar aðeins um stjórn og forstjóra að fjármálaráðaherra skipi stjórn Landsvirkjunar og að stjórn ráði forstjóra er veiti fyrirtækinu forstöðu. Ekkert er þar minnst á hvort eða hvernig auglýsa skuli starfið.

„Okkur er ekki skylt að auglýsa og við töldum okkur líka fá breiðari umsækjendahóp með því að hafa trúnað um umsóknir.”

Laun forstjóra munu að sögn Bryndísar heyra undir kjarráð samkvæmt breytingu á lögum um ráðið sem samþykkt voru á Alþingi í gær.

„Forstjóra Landsvirkjunar er þar sérstaklega getið, enda var þar líka um að ræða breytingu á sérlögum um Landsvirkjun,” sagði Bryndís Hlöðversdóttir.