Landsvirkjun og Advania hafa undirritað samning um afhendingu á rafmagni til gagnavers Advania á Fitjum. Samningurinn gerir Advania kleift að halda áfram að tryggja vöxt gagnaversreksturs fyrirtækisins og hefst afhending samkvæmt samningi fyrir árslok 2016. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Orkan verður afhent úr núverandi aflstöðvarkerfi Landsvirkjunar. „Landsvirkjun á og rekur 16 aflstöðvar, þar af 14 vatnsaflsstöðvar, tvær jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Sem stendur er Landsvirkjun að reisa nýja jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum á Norðausturlandi og einnig standa yfir framkvæmdir við stækkun vatnsaflsvirkjunar við Búrfell á Suðurlandi,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.

Haft er eftir Herði Árnasyni að það sé ánægjulegt að fá Advania í hóp viðskiptavina Landsvirkjunar. Hann leggur áherslu á að á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera og undanfarin ár hefur Landsvirkjun unnið að því að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir gagnaver. Góður vöxtur Advania og annarra gagnaversfyrirtækja á Íslandi byggist á hagstæðum og öruggum orkusamningum til langs tíma, samkeppnishæfu umhverfi og samvinnu hagsmunaaðila í greininni hér á landi.

Einnig er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra Advania, að umfang Advania á gagnaversmarkaði hafi vaxið mjög á undanförnum árum og því eru stór verkefni í farvatninu hjá fyrirtækinu á komandi misserum.  „Aðgengi að orku er einn mikilvægasti þátturinn í rekstri gagnavera og því er það okkur mikil ánægja að gera þennan samning við Landsvirkjun sem við teljum að styrki getu okkar til að þjónusta fleiri alþjóðlega viðskiptavini í framtíðinni,“ er haft eftir Gesti að lokum.