Landsvirkjun og Eimskip undirrituðu í dag viljayfirlýsingu sem snýr að orkuskiptum í skipa- og landflutningaflota Eimskips.

Fyrirtækin munu skoða saman stöðu markaða og tækniþróunar þegar kemur að notkun vetnis eða rafeldsneytis í stað jarðefnaeldsneytis í samgöngum og draga þar með verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, að því er kemur fram í tilkynningu. Byggt á þeirri skoðun munu fyrirtækin ræða möguleg kaup og sölu vetnis eða rafeldsneytis sem framleitt yrði af Landsvirkjun eða samstarfsaðilum.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist spenntur fyrir þessu mikilvæga skrefi í átt að orkuskiptum íslensks atvinnulífs.

„Við teljum að vetni og rafeldsneyti muni leika stórt hlutverk í orkuskiptum Íslands. Landsvirkjun er staðráðin í að ryðja brautina og hefur nú þegar tilkynnt um þróun tveggja rafeldsneytisverkefna. Annars vegar framleiðslu vetnis fyrir þungaflutninga á landi og önnur spennandi nýsköpunarverkefni og hins vegar framleiðslu metanóls fyrir orkuskipti á hafi. Samvinna með Eimskip og fleiri öflugum íslenskum fyrirtækjum er mikilvæg til að skilja þarfir framtíðarnotenda þessara nýju grænu orkugjafa.“

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir félagið vilja stíga mikilvæg skref í orkuskiptum og því gott að vera í nánu samstarfi við orkufyrirtæki þjóðarinnar.

„Við leggjum mikinn metnað í að vera framarlega þegar horft er til orkuskipta. Það er mikilvægt að vera hluti af hreyfiaflinu og takast á við verkefni sem styðja við þá þróun. Rekstur Eimskips er fjölbreyttur og snertir bæði land- og sjóflutninga ásamt annarri flutningstengdri þjónustu og því þurfum við að huga að fleiri en einni lausn. Við höfum séð í umhverfisverkefnum okkar að aðgerðir skila árangri. Við viljum stíga enn stærri skref og samstarf okkar við Landsvikjum er mikilvægur hluti af þeirri vegferð.“

Þá eru forstjórarnir tveir sammála um að tími aðgerða sé runninn upp í orkuskiptum og ekki eftir neinu að bíða.