Landsvirkjun og Íslandsbanki hafa skrifað undir samning um að framlengja veltilán að fjárhæð 3 milljarðar króna. Jafnframt var skrifað undir samning um nýtt veltilán að fjárhæð 2 milljarðar króna.

„Lánstími veltilánanna er þrjú ár og ber lánið Reibor millibankavexti auk mjög hagstæðs álags. Lánið er svokallað veltilán og getur Landsvirkjun dregið á það eftir þörfum með litlum fyrirvara. Veltiláninu er ætlað að auka enn frekar aðgengi Landsvirkjunar að fyrirvaralítilli fjármögnun í íslenskum krónum og þar með bæta lausafjárstöðu fyrirtækisins sem er afar góð fyrir,“ segir í tilkynningu um lánin.