Landsvirkjun og RES Orkuskóli hafa undirritað samstarfssamning á sviði orkurannsókna og kennslu til tveggja ára.

Þetta kemur fram í RES en það voru Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður, og Friðrik Sophusson, forstjóri, sem undirrituðu samstarfssamninginn fyrir hönd Landsvirkjunar en þeir Björn Gunnarsson, rektor og Guðjón Steindórsson, framkvæmdastjóri fyrir hönd RES Orkuskóla.

Fram kemur í tilkynningunni að með samstarfssamningnum styrkir Landsvirkjun starfsemi skólans með áherslu á uppbyggingu á sviði vatnsorkufræða og kennslu á því sviði.

RES er alþjóðlegur skóli á sviði endurnýjanlegra orkufræða og hefur það meginhlutverk að hagnýta styrkleika Íslendinga á því sviði og styðja við þau fyrirtæki og stofnanir sem starfa hérlendis í orkugeiranum með því að efla æðri menntun og rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum, orkutækni, og bættri orkunýtingu.

RES starfar í nánu samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sem útskrifa nemendur skólans. Landsvirkjun, stærsti raforkuframleiðandi landsins, er hluthafi í Orkuvörðum ehf. sem er eigandi RES Orkuskóla.

RES starfrækir nú þegar jarðhitabraut við skólann sem leggur áherslu á rannsóknir og menntun á sviði jarðhitafræða, auk þriggja annarra brauta um vistvænt eldsneyti og lífmassaorku, efnarafala og vetni, og um orkukerfi og orkustjórnun. RES hefur ákveðið að koma upp sérstakri vatnsaflsbraut við skólann og leggja þar með enn frekari áherslu á rannsóknir og menntun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Fjárhagsstuðningur Landsvirkjunar við RES er í formi hlutafjáraukningar á næstu tveimur árum og styrks að hluta til undirbúnings á vatnsaflsbraut og að hluta til stuðnings við meistaranema.

Gegn stuðningnum fær Landsvirkjun fulltrúa í brautarstjórn vatnsaflsbrautar RES, en brautarstjóri og brautarstjórn hafa faglega umsjón með skipulagi vatnsaflsbrautar. RES mun ráða sérfræðinga Landsvirkjunar sem kennara á vatnsaflsbraut skólans eftir því sem tök eru á.

Þá kemur jafnframt fram í tilkynningunni að samkvæmt samningnum leggur Landsvirkjun fram verkefnahugmyndir til handa meistaranemum hjá RES eftir því sem tilefni eru til.

Þá veitir RES Landsvirkjun aðgang að greiningartækjum á Rannsóknarstofu RES í efnistækni að Borgum á Akureyri.

RES og Landsvirkjun munu vinna að því á samningstímanum að sækja sameiginlega um rannsóknarstyrki í innlenda sem erlenda styrktarsjóði, t.d. í tengslum við rannsóknarsamstarf Norðurlandaþjóðanna og styrki á vegum Evrópusambandsins.