Sigurður Markússon hefur verið ráðinn í starf forstöðumanns nýsköpunardeildar á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviði Landsvirkjunar. Sigurður var valinn úr stórum hópi hæfra umsækjenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Sigurður mun leiða hóp starfsfólks, sem leitar uppi, styður og stuðlar að orkutengdri nýsköpun. Hann hefur víðtæka reynslu af nýsköpun í orkumálum og hefur leitt og þróað fjölda rannsóknar- og nýsköpunarverkefna. Hann  hóf störf hjá Landsvirkjun árið 2011 á Þróunarsviði í jarðvarmadeild. Þar sinnti hann rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum ásamt verkefnum sem snúa að þróun jarðvarmavirkjana og bættri nýtingu þeirra. Hann varð viðskiptaþróunarstjóri á Markaðs- og viðskiptaþróunarsviði í maí 2020, en fluttist svo yfir á nýsköpunardeild við stofnun hennar í lok síðasta árs.

Sigurður lauk BSc prófi í jarðfræði árið 2006, meistaraprófi í jarðefnafræði frá Háskóla Íslands 2009, diplómanámi í verkefnastjórn við Stanford háskóla árið 2016 og meistaranámi í forystu í sjálfbærni (e. sustainablilty leadership) frá háskólanum í Cambridge árið 2020. Þar rannsakaði hann tækifæri Íslands á sviði orkufrekrar matvælaframleiðslu.