Landsvirkjun og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) skrifuðu í gær, 16. mars, undir nýjan lánasamning að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara eða að jafnvirði um 8,6 milljarða króna. Lokagjalddagi lánsins er 2027 og ber lánið Libor millibankavexti auk hagstæðs álags. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Lánið er mikilvægur áfangi í heildarfjármögnun Búðarhálsvirkjunar en Landsvirkjun hefur unnið að fjármögnun verkefnisins á undanförnum misserum, segir í tilkynningunni.

Vonir standa til að fjármögnun Búðarhálsvirkjunar ljúki fljótlega. Lánið er hið fyrsta sem bankinn veitir til íslensks fyrirtækis eftir október 2008.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:„Lánið er stór áfangi í fjármögnun Búðarhálsvirkjunar og við erum skrefi nær í að ljúka fjármögnun verkefnisins. Lánveiting bankans endurspeglar mikið traust á fyrirtækinu, en staða Landsvirkjunar hefur sjaldan verið sterkari“.

Kristján Gunnarsson, deildarstjóri fjármögnunardeildar Landsvirkjunar, segir að vextir á láninu séu umtalsvert undir markaðsálagi og að þeir séu hagstæðir. Ekki sé þó hægt að gefa nákvæmlega upp vexti á lánunum að svo stöddu.