Landsvirkjun hefur undirritað raforkusölusamning við PCC Bakki Silicon hf. vegna sölu á rafmagns fyrir kísilmálmverksmiðju sem PCC Bakki Silicon áformar að reisa við Bakka við Húsavík. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi snemma á árinu 2017 og muni framleiða allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og nota 58MW af afli sem unnið verður með endurnýjanlegum hætti í jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum.

„Við erum mjög ánægð að ná auknum fjölbreytileika í viðskiptavinahóp okkar og bjóðum PCC Bakki Silicon og kísilmálmiðnaðinn velkominn í viðskipti til okkar. Við erum viss um að kísilmálmiðnaður muni dafna á Íslandi til langs tíma þar sem raforka er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum.  Aðstæður á Íslandi henta vel til að orkufrekur iðnaður geti hér náð samkeppnisforskoti í Evrópu og á alþjóðlega vísu,“ sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar í tilkynningu. „Við erum einnig mjög ánægð að langt samstarf okkar við PCC Bakki Silicon hafi nú náð þessum mikilvæga áfanga og við lítum björtum augum til næstu verkefna og áframhaldandi samstarfs.“

Samningurinn er undirritaður með ákveðnum fyrirvörum sem þurfa að vera uppfylltir síðar á árinu, þ.m.t. um tilheyrandi leyfisveitingar og fjármögnun, auk samþykki stjórna beggja félaganna.