Mannvit og Landsvirkjun hafa samið um að verkfræðifyrirtækið muni hafa framkvæmdaeftirlit með stækkun Búrfellsvirkjunar. Áætlað er að virkjunin verði gangsett snemma árs 2018, en hún á að geta framkallað 100MW afl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Mannvit mun þá hafa eftirlit annars vegar með ýmis konar jarðvinnu - greftri og aðrennsliskurði - auk þess sem fyrirtækið mun fylgjast með byggingarvinnu á borð við inntakshús og aðkomumannvirkisins. Þá mun það einnig sjá um öryggi, heilbrigðis- og umhverfismál.

Haft er eftir Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, að ánægjulegt sé að fá rótgróið verkfræðifyrirtæki á borð við Mannvit til þess að annast framkvæmdaeftirlit við stækkun virkjunarinnar. Þá er einnig haft eftir Sigurhirti Sigfússyni forstjóra Mannvits að ánægjulegt sé að koma að stækkuninni.