Eign íslenska ríkisins í Landsvirkjun er í ríkisreikningi metin á rúma 60,4 milljarða króna og er það óbreytt verðmat frá árinu 2010. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að eignir Landsvirkjunar, sem er í 99,9% eigu ríkisins, nema einum 524,5 milljörðum króna og eigið fé fyrirtækisins nemur 204,3 milljörðum, ef miðað er við tölur í ríkisreikningi.

Engar skýringar er að finna í ríkisreikningi á því af hverju eignarhluturinn er metinn svo lágt. Hins vegar er tekið fram að ábyrgðir ríkisins í árslok 2011 vegna skulda Landsvirkjunar námu 233,4 milljörðum króna og við það bætast 105 milljarðar í lok þessa árs.