Hagnaður Landsvirkjunar árið 2012 nam 54,2 milljónum dala, andvirði um 6,9 milljarða króna, en árið 2011 nam hagnaður fyrirtækisins 26,5 milljónum dala.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar námu 407,8 milljónum dala, sem er 6,5% lækkun frá árinu áður og EBITDA nam 319,6 milljónum dala, en var 345,2 milljónir dala árið 2011.

Rekstrar- og viðhaldskostnaður dróst eilítið saman milli ára, var 88,2 milljónir dala í fyrra, en var 91 milljón dala árið 2011. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 99,6 milljónum dala en var 42,6 milljónir árið 2011. Munurinn skýrist að mestu af því að árið 2011 voru gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða neikvæðar um 93,2 milljónir dala en í fyrra voru þær neikvæðar um 3,4 milljónir. Landsvirkjun greiddi 45,4 milljónir dala í tekjuskatt í fyrra, sem samsvarar um 5,8 milljörðum króna.

Eignir Landsvirkjunar lækkuðu úr 4.636 milljónum dala í 4.518,5 milljónir á árinu. Eigið fé jókst úr 1.661,3 milljónum dala í 1.697,2 milljónir og skuldir lækkuðu úr 2.974,7 milljónum í 2.821 milljón dala.

Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Herð Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að raforkuvinnsla fyrirtækisins hafi gengið vel og að framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun séu á áætlun. Skrifað var undir raforkusamninga við tvo viðskiptavini á árinu.

Hann segir afkoma ársins viðunandi í ljósi efnahagsástands í heiminum. Tekjusamdráttinn megi að hluta rekja til lækkandi álverðs og áhrifa þess á samningsbundið raforkuverð. Við þessar aðstæður njóti fyrirtækið góðs af því að endursamið var við einn af stærstu viðskiptavinum Landsvirkjunar um hærra raforkuverð sem ekki var tengt álverði.

Þá segir hann að á síðustu þremur árum hafi nettó skuldir fyrirtækisins lækkað um 389 milljónir dala og að nauðsynlegt sé að Landsvirkjun nýti núverandi lágvaxtaumhverfi til að halda áfram á þeirri braut. Sjá má ársreikning Landsvirkjunar hér .