Hagnaður Landsvirkjunar á fyrri helmingi ársins nam 34,5 milljónum dala, andvirði um fjögurra milljarða króna, að því er fram kemur í árshlutareikningi fyrirtækisins. Á sama tíma í fyrra var 52,2 milljóna króna tap á rekstri Landsvirkjunar, en það var einkum vegna þess að gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða fyrirtækisins drógu afkomuna niður um 169,5 milljónir dala.

Rekstrartekjur námu 203,2 milljónum dala, sem er 1,7% lækkun frá sama tímabili árið áður. EBITDA nam 154,9 milljónum dala. EBITDA hlutfall er 76,2% af tekjum, en var 79,9% á sama tímabili í fyrra.

Nettó skuldir fyrirtækisins lækkuðu um 52,8 milljónir dala frá áramótum og voru í lok júní 2.376,4 milljónir dala, andvirði 273,3 milljarða króna.

Í tilkynningu er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að reksturinn hafi almennt gengið vel á tímabilinu þrátt fyrir tímabundnar áskoranir vegna vatnsstöðunnar. Ánægjulegt sé að nettó skuldir fyrirtækisins haldi áfram að lækka.

Hörður segir að tekjur hafi lækkað frá sama tímabili í fyrra m.a. vegna þess að draga þurfti tímabundið úr framboði á ótryggri raforku vegna vatnsstöðu í miðlunarlónum í vor, sem leiddi til þess að tekjur voru um 10 milljónum dala lægri en gert var ráð fyrir. Þá hafi lægra álverð einnig haft áhrif á tekjur.

Hann segir að svo virðist sem eftirspurn eftir raforku á Íslandi virðist nú orðin meiri en framboð.