Vegna þess að 200 ár verða liðin frá stofnun Hins íslenska bókmenntafélags árið 2016 hefur Landsvirkjun styrkt félagið um 20 milljónir króna.

Forstjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, Hörður Arnarson og Jónas Þór Guðmundsson veittu forseta bókmenntafélagsins, Jóni Sigurðssyni styrkinn við hátíðlega athöfn í dag.

Styrkurinn verður greiddur með tveimur jöfnum greiðslum, hin fyrri á þessu ári en seinni á næsta ári. Styrkurinn er veittur í tilefni þess að Landsvirkjun heldur upp á 50 ára afmæli sitt á þessu ári. Bókmenntafélagið mun svo halda veglega upp á tveggja alda afmæli sitt síðar.

Í tilefni af undirritun samstarfssamningsins lásu Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar og Einar Kárason rithöfundur upp brot úr greinum sínum sem hafa birst í Skírni, en Skírnir var fyrst gefinn út árið 1827 og er elsta tímarit á íslenskri tungu.