Tap Landsvirkjunar á fyrri helmingi ársins var 6,3 milljarðar króna. Hagnaður á sama tímabili í fyrra var um það bil einn milljarður króna.

Rekstrartekjur námu 24,8 milljörðum króna sem er 1,9% hækkun frá sama tímabili árið áður. EBITDA nam 19,8 milljörðum króna. EBITDA hlutfall er 79,9% af tekjum, en var 80,8% á sama tímabili í fyrra.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunnar, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar að afkoman á fyrri árshelmingi sé viðunandi í ljósi efnahagsástands í heiminum.

„Það er ánægjulegt að við sjáum aukningu í handbæru fé frá rekstri sem endurspeglar styrkleika fyrirtækisins og getu þess til að standa undir skuldbindingum sínum. Nettó skuldir fyrirtækisins halda áfram að lækka, nú um 30 milljónir USD og hafa nettó skuldir fyrirtækisins því lækkað um samtals 418 milljónir USD á síðastliðnum fjórum árum sem eru jákvæð tíðindi. Engu að síður er  mikilvægt  að haldið verði áfram á sömu braut í ljósi skuldsetningar fyrirtækisins,“ segir Hörður.