Landsvirkjun hefur undirritað lánssamning að upphæð 50 milljónir evra, eða um 4,3 milljarðar króna, við Evrópska fjárfestingabankann (EIB) í Lúxemborg. Lánið er til 15 ára og verður greitt út til Landsvirkjunar á árinu 2005. Kjörin á láninu eru með því besta sem Landsvirkjun getur fengið á lánamarkaði enda felst sérhæfing EIB í útlánum til verkefna sem auka samkeppnishæfni og vöxt Evrópulanda. Lánið er veitt undir sérstökum lánaramma sem bankinn veitir til EFTA landanna.

Á sama tíma veitti EIB Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja lán. Öll eru þessi lán hugsuð til að auðvelda orkuöflun og orkuflutning vegna stækkunar Norðuráls.