Landsvirkjun mun taka yfir sex milljarða króna verksamninga Arnarfells við Kárahjúkavirkjun. Sökum bágrar fjárhagslegrar stöðu hefur Arnarfelli ekki reynst mögulegt að ljúka verkinu, en niðurstöður viðræðna um fjárhagslega stöðu Arnarfells eru að Landsvirkjun mun taka verkið yfir.

Sigurður Arnalds, kynningarstjóri Kárahnjúkavirkjunar, segir það miður að Arnarfell hafi ekki getað klárað verkið, þar sem fyrirtækin hafi átt gott samstarf. „Við munum í framhaldinu vinna í góðri samvinnu með Arnarfelli um að yfirtaka verkið og sem flesta samninga, bæði við starfsfólk og annað," segir Sigurður. Tveimur þriðju hlutum verksins er þó þegar lokið, en eftir stendur að Jökulsárveitu þarf að ljúka næsta sumar og Hraunaveitu sumarið 2009 og segir Sigurður að það sem eftir standi hljóði upp á um tvo milljarða króna.

Sigurður segir að með því að taka yfir samningana vonist Landsvirkjun til að ná samfellu í verkinu og forðast þannig tímatap. „Það er ljóst að við munum fljótlega leita til annarra verktaka við aðstoð við verkið. Þar munum við fara einhverja samningsleiðir, þar sem við höfum ekki tíma til að fara út í útboð," segir Sigurður.

Hann segir það ugglaust kosta einhverja fjármuni og tíma að skipta svona um hest í miðri á, en það sé vonandi ekki stórar upphæðir sem þar um ræðir.