Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að tvöfalda stuðning sinn við Ómar Ragnarsson en beiðni frá Ómari um aukin stuðning vegna kvikmyndagerðar við Hálsalón var tekinn fyrir á stjórnarfundi í morgun. Landvirkjun samþykkti að auka framlag sitt til Ómars úr fjórum milljónum i átta gegn afnotum af kvikmyndaefni hans. En eins og kunnugt er kvikmyndaði Ómar nú í haust landið sem fór undir lónið en hann hyggst gera kvikmynd um Kárahnjúka.


Samkvæmt tilkynningu frá Landsvirkjun mun Ómar og samstarfsmenn hans  einnig fá húsaskjól og fæði í búðum Landsvirkjunar við Kárahnjúka á meðan á kvikmyndatökum stendur.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir:

" Landsvirkjun virðir ólík sjónarmið gagnvart Kárahnjúkavirkjun og telur jákvætt að styðja Ómar í viðleitni sinni við að sýna sem best myndun Hálslóns. Enda hefur samstarf Ómars og Landsvirkjunar ætíð verið gott. Minna má á að þegar lagður var hornsteinn að Fljótsdalsstöð síðastliðið vor komu fram óskir andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar undir forystu Andra Snæs Magnasonar um að sjónarmið þeirra færu einnig í blýhólk hornsteinsins og var það gert".