Landsvirkjun undirritaði í dag samning við Fuji Electric og Balcke Dürr um kaup á 45 MW vélasamstæðu fyrir Þeistareykjavirkjun. Tilboðið er 75% af kostnaðaráætlun verkkaupa og er heildarjárhæð samningsins um 42 milljónir bandaríkjadala. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Í henni segir að útboð vegna verksins var auglýst innan Evrópska efnahagssvæðisins og var opnað fyrir tilboð 12. nóvember 2014. Fjögur tilboð bárust í verkið og var tilboð Fuji Electric og Balcke Dürr fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið. Verkið felst í deilihönnun, framleiðslu, flutningi, uppsetningu og prófunum á 45 MW jarðgufuhverfli, rafala og búnaði fyrir kalda enda með viðeigandi varahlutum fyrir 1. áfanga Þeistareykjavirkjunar. Í verkinu felst einnig valréttur á viðbótar 45 MW vélasamstæðu fyrir 2. áfanga virkjunarinnar.

Stefnt að rekstri Þeistareykjarvirkjunar haustið 2017

„Við erum mjög ánægð með undirritun samningsins sem er stór áfangi í áformum okkar um uppbyggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum,“ er haft eftir Herði Arnarssyni forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningunni. „Hagstæð tilboð bárust í verkið og við fögnum því að skrifa undir samning við þessa öflugu aðila. Undirbúningur virkjunarinnar er þegar hafinn en við stefnum að því að Þeistareykjavirkjun geti hafið rekstur haustið 2017.”

Frekari upplýsingar um Þeistareykjavirkjun er að finna á heimasíðu Landsvirkjunar .