Landvirkjun stefnir á að selja tíu ára skuldabréf, að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara, til fjárfesta og fjármagna þannig framkvæmdir sem til stendur að ráðast í. Skuldabréfið mun bera fasta 4,9% vexti sem fyrirtækið greiðir tvisvar á ári en höfuðstóllinn greiðist í einu lagi í lok lánstímans, það er eftir tíu ár. 70 milljónir Bandaríkjadollara jafngildir tæplega 8 milljörðum íslenskra króna miðað við skráð gengi Seðlabankans.

Með þessu fetar Landsvirkjun í fótspor ríkissjóðs sem fór í skuldabréfaútboð í dollurum um miðjan júnímánuð síðastliðinn. Þótti það útboð ganga vel og var eftirspurn eftir skuldabréfunum. Ávöxtunarkrafa skuldabréfanna lækkaði nokkuð eftir útboðið, var 4,52% snemma 10. ágúst en var 5,2% 17. ágúst samkvæmt Bloomberg upplýsingaþjónustunni.

Samkvæmt tilkynningu er umsjónaraðili útboðsins Íslandsbanki. Þar segir jafnframt:

Skuldabréfið er mikilvægur áfangi í fjármögnun Landsvirkjunar og verður meðal annars nýtt við fjármögnun framkvæmda á Norðausturlandi sem stefnt er að ráðast í á næsta ári. Landsvirkjun leggur nú mikla áherslu á að tryggja fjármögnun þeirra verkefna sem fyrirtækið hyggst ráðast í á næstu árum í ljósi óvissuástands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.