Að sögn Stefáns Péturssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, munu stjórnendur félagsins eiga fund með sérfræðingum matsfyrirtækisins Standard & Poor’s innan skamms.

Landsvirkjun hefur verið sett á athugunarlista (e. credit watch) hjá félaginu en bæði ríkissjóður og Landsvirkjun eru með einkunnina BBB- hjá Standard & Poor’s og eru bæði á neikvæðum horfum á meðan óvissa er um allt í kringum Ísland.

Umsögn þeirra segir fjárfestum að þeir muni skoða sérstaklega lánshæfi Landsvirkjunar á næstunni til lækkunar.

Að sögn Stefáns vonast þeir hjá Landsvirkjun að unnt verði að koma með útskýringar sem dugi til að halda lánshæfi óbreyttu enda séu ekki forsendur til lækkunar. Landsvirkjun er einnig með mat frá Moody’s. Að sögn Stefáns hafa þeir ekki sýnt nein merki þess að þeir hafi áhyggjur af félaginu og er einkunn þeirra hærri en hjá Standard & Poor’s eða Baa1.