*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 26. mars 2020 13:15

Landvernd kærir aftur veg um Teigsskóg

Áfram deilt um framkvæmdir í gegnum ósnortinn Landnámsskóg. Vegagerðin sögð hafa beitt þvingunum á Reykhólahrepp.

Ritstjórn
Leið A1 sem kallar á þverun Þorskafjarðar og myndi vernda hinn ósnortna landnámsskóg Teigsskóg á norðanverðri strönd Þorskafjarðar er að mati Vegagerðarinnar of dýr og kostar langan undirbúning til viðbótar. Framkvæmdir stöðvaðar fyrir nærri áratug.
Aðsend mynd

Landvernd kærir framkvæmdaleyfi vegna vegar um Teigsskóg til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála, en félagið segir vegalagninguna bæði brjóta lög og samþykkt Reykhólahrepps verið fengna með þvingunum. Teigsskógur er sagður stærsta samfellda skóglendi Vestfjarða með upprunalegum vistgerðum með leirum sem njóti verndar náttúrulega.

Um er að ræða langa og mjóa strandlílínu sem snýr á móti suðri í Þorskafirði í Breiðafirði, með íslenskum birkiskógi sem teygist milli fjalls og fjöru líkt og lýst er að landið allt hafi verið í Landnámu. Hótel Bjarkarlundur, sem margir muna úr sjónvarpsþáttaröðinni Bjarkarlundi er ekki langt frá.

Stjórn Landverndar telur að framkvæmdaleyfi sem sveitastjórn Reykhólahrepps veitti Vegagerðinni vegna veglagningar í Teigsskógi brjóti í bága bæði við náttúruverndarlög og skipulagslög. Þá telja samtökin að stjórnarskrárákvæði um sjálfstæði sveitarfélaga hafi ekki verið virt og vísa í það sem samtökin kalla bókanir um þvingun.

Deilur í áratug en engar nýjar lausnir

Vegagerðin sótti um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps um vegalagningu Vestfjarðaleiðar um Teigsskóg í desember síðastliðnum, eftir að sveitarfélagið samþykkti breytt aðalskipulag þar sem vegurinn var látinn liggja um skóginn í október. Í nóvember staðfesti Skipulagsstofnun svo aðalskipulagsbreytinguna, en árið 2013 hafnaði stofnunin að vegurinn færi um skóginn. Lögum um stofnunina hefur síðan verið breytt.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur löngum staðið styr um það hvaða leið eigi að fara til vegalagningar um Reykhólahrepp þar sem Hjallsháls og Ódrúgsháls hafa verið erfiðir farartálmar fyrir íbúa sunnanverða Vestfjarða til að sækja þjónustu út fyrir landshlutann.

Nokkrar leiðir hafa verið kynntar til að leysa málið, leið A1 byggir á þverun Þorskafjarðar í mynni fjarðarins milli Skálaness og Reykjaness sem færi fyrir báða hálsana, sem og hún myndi bæði vernda Teigsskóg sem verið hefur ósnortinn frá landnámi. Kosturinn við þann veg er jafnframt að sú leið myndi liggja í gegnum aðalbyggðina á Reykhólum og vegur liggur nú þegar út allt Reykjanesið.

Leið D2 gerir ráð fyrir jarðgöngum en bæði leið A og D2 eru sagðar fjórum milljörðum króna dýrari en leið Þ-H í gegnum Teigsskóg sem Vegagerðin hefur lagt áherslu á og sagt að aðrar leiðir muni tefja framkvæmdir enn frekar vegna ónógs undirbúningstíma, en eins og áður segir var sú leið stöðvuð fyrir tæpum áratug síðan.

Vegna fyrrnefndra ástæðna um að framkvæmdaleyfi til vegalagningarinnar brjóti í bága við lög og meintra þvingana segir í yfirlýsingu Landverndar um málið:

Það er því óhjákvæmilegt að Landvernd sem umhverfisverndarsamtök að krefjist stöðvunar framkvæmda og ógildingu framkvæmdaleyfis vegna form- og efnisannmarka. 

Stjórn Landverndar telur að lagfæringar á vegum í Reykhólahreppi séu nauðsynlegar. Hins vegar hefur ekki  verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að velja ÞH-leiðina, Teigsskógarleið, umfram aðrar leiðir sem hafa verið metnar.

Teigsskógur er stærsta samfellda skóglendi á Vestfjörðum. Hann er óslitinn frá fjöru og upp í hlíðar og myndar einstakt samspil með leirum og grunnsævi.

Báðar þessar vistgerðir, birkiskógurinn og leirurnar njóta verndar Náttúruverndarlaga. Þá er svæðið allt verndað með sérlögum um Breiðafjörð og áhrifasvæði framkvæmdanna eru á náttúruminjaskrá. 

Sveitastjórn hefur með veitingu framkvæmdaleyfis brotið gegn náttúruverndarlögum þar sem ekki hefur verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að raska birkiskóginum og leirunum til að bæta samgöngur. Aðrar leiðir til að bæta samgöngur hafa verið metnar með minni umhverfisáhrif og hefðu því verðið betri kostur.  

Stjórn Landverndar telur því að sveitastjórnin og Vegagerðin hafi ekki farið eftir niðurstöðu valkostamats. Fjárhagslegir hagsmunir einir virðast hafa ráðið leiðarvali. Slíkt er ekki réttætanlegt. Umhverfismat væri í raun óþarft ef eingöngu þyrfti að horfa til kostnaðar við ákvörðun um val á vegstæði.

Þá telur stjórn Landverndar að í ákvörðunarferlinu hafi verið brotið gegn 78. grein stjórnarskrár um sjálfræði sveitarfélaga og að gegið hafi verið gegn skipulagslögum.

Eins og fram kemur í bókunum sveitastjórnarfulltrúa Reykhólahrepps beitti Vegagerðin sveitastjórnina þvingunum til þess að fá ÞH-leið, Teigskógarleið, samþykkta. 

Hér má sjá fleiri fréttir um vegalagningu Vestfjarðarvegs um Reykhólahrepp: