Stjórn Landsvirkjunar samþykkti á aðalfundi í dag að greiða 4,25 milljarða í arð til eiganda síns, íslenska ríkisins, í kjölfar jákvæðrar afkomu síðasta árs. Félagið hagnaðist um tæplega fjórtán og hálfan milljarð á síðasta ári.

Tekjur frá rekstri námu 534 milljónum dollara, andvirði tæpra 63,9 íslenskra milljarða, og jukust um ellefu prósent frá árinu 2017. EBITDA félagsins endaði í 390 milljónum dollara, rúmum 46,6 milljörðum króna, sem er þrettán prósentum hærra en árið á undan. Handbært fé frá rekstri var rúmir 35 milljarðar í árslok. Nettó skuldir voru tæpir 1,9 milljarðar dollara eða rúmir 225 milljarðar íslenskra og drógust saman um átta prósent milli ára.

Laun til stjórnarmanna námu rúmum 23 milljónum og laun forstjóra, auk hlunninda, voru rúmar 45 milljónir. Tekið er fram í ársreikningi að mánaðarlaun forstjóra án hlunninda hafi verið óbreytt frá í júlí 2017.

Arðsemi eigin fjár var tæp sex prósent samanborið við 5,5 prósent árið 2016. Eiginfjárhlutfallið var í árslok 48,6 prósent en það var tæp fjörutíu prósent árið 2014.

Á fundinum var stjórn félagsins kjörin og er hún óbreytt. Hún saman stendur af formanninum Jónasi Þór Guðmundssyni, Álfheiði Ingadóttur, Jóni Birni Hákonarsyni, Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur og Gunnari Tryggvasyni.