Sökum erfiðs efnahagsástand hefur hið opinbera ákveðið að falla frá ýmsum verkefnum svo sem opinberum vegaframkvæmdum.

Ekki eru allir á eitt sáttir með slíka tilhögun og hefur byggðarráð Langanesbyggðar ályktað svo að frestun mikilværa vegafrakvæmda geti vart talist eðlileg viðbrögð.

Hvetur byggðarráð Langanesbyggðar því stjórnvöld til að endurskoða ákvarðanir varðandi frestun framkvæmda er lúta að styrkingu samgöngunetsins

Þetta kemur fram í frétt Austurgluggans. Í fréttinni er vitnað í téða ályktun byggðarráðsins sem er svohljóðandi:

,,Í ljósi fregna af fyrirhuguðum niðurskurði í framkvæmdum við nauðsynlegar samgöngubætur á landsbyggðinni t.d. með frestun Vaðlaheiðargangna og tengivegar af hringvegi í Vopnafjörð, með vísan til erfiðs efnahagsástands, vill byggðaráð Langanesbyggðar vekja athygli stjórnvalda á því að með þessu er verið að höggva þar sem síst skildi.“

Það að falla frá löngu tímabærum framkvæmdum á svæðum sem hafa þurft að lifa við efnahagslegan samdrátt á umliðnum árum geta vart talist eðlileg viðbrögð sem mótvægi við samdrætti á svæðum sem hafa lifað við ofurþenslu á sama tíma. Á þeim tímun sem nú fara í hönd skiptir sköpum fyrir þjóðarbúið að hjól atvinnulífsins á landsbyggðinni nái að snúast með eðlilegum og auknum krafti. Stuðla þarf að því að framleiðslufyrirtæki í sjávarbyggðum, sem eru til þess fallin að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar, njóti eins góðra aðstæðna og mögulegt er. Liður í því er að efla samgöngukerfið og flýta frekar en að seinka þeim samgöngubótum sem eru til þess fallnar. Byggðaráð Langanesbyggðar hvetur því stjórnvöld til að endurskoða ákvarðanir varðandi frestun framkvæmda er lúta að styrkingu samgöngunetsins."