„Ég er engu nær. Ég hefði kannski viljað fresta umræðum þar til fyrsta nefndin skilar af sér síðar í mánuðinum,“ segir Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata. Hún tók þátt í umræðum um skýrslu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hann flutti á Alþingi í morgun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Þar rakti hann m.a. hvaða verkefni hafi verið unnin í þágu heimilanna frá því ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók til starfa. Allt er á áætlun, að sögn Sigmundar.

Birgitta sagði í umræðunum ágætt að fá yfirlitið þótt sér fyndist fátt nýtt í því, í raun væru þetta allt upplýsingar sem hafi legið fyrir en ítrekaði að skýrt verði að koma fram hverji eigi að fá skuldaleiðréttingu. Hún tók jafnframt undir með Brynhildi Pétursdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, að þegar ráðherranefndirnar hafa lokið störfum sínum á Alþingi eftir að fá niðurstöður þeirra og vinna með þær. Þá sagði hún mikilvægt að þingmenn marki sér skýrari stöðu, hætti skotgrafarhernaðinum og bendi hver á annan.

„Mér finnst það gríðarlega þreytandi og langar bara til að hverfa út úr líkamanum þegar hún byrjar. Því hún gagnast ekki neitt. Það gagnast ekki að ásaka hvort annað. Þá erum við, þingmenn lýðræðisins, farin að þvælast fyrir hvert öðru. Þingmenn hafa tæki til að hafa áhrif á tillögur ríkisstjórnarinanr. Við megum ekki tala niður þau tækifæri sem við höfum ti lað finna þverpólitíska sátt. Það er þreytandi, gamaldags og tilgangslaust,“ sagði hún.