Yfir 50 manns mættu á opin kynningarfund sem var haldinn vegna sölu á leigufélaginu Kletti. Klettur er eitt stærsta félag sinnar tegundar á Íslandi, með yfir 450 íbúðir í útleigu og í eigu Íbúðalánasjóðs. Nýlega var tilkynnt að Íbúðalánasjóður ætlaði að selja félagið, en á fundinum í dag sagði Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, Klett vera langbestu eign sjóðsins.

Heildareignir Kletts nema um 9 milljörðum króna. Eigið fé nam rúmum 3,7 milljörðum og eiginfjárhlutfall er 41,8%. Leigutekjur Kletts árið 2015 námu 617 milljónum kr. og munu nema 654 milljónum kr. árið 2016 miðað við núgildandi leigusamninga og leigunýtingu.

Mögulegt er að fá fjármögnun fyrir kaupunum hjá Íbúðalánasjóði, en í boði er allt að 80% veðhlutfall af viðmiðunarverði veðhæfra eigna með 4,2% föstum, verðtryggðum vöxtum til allt að 50 ára með engu uppgreiðslugjaldi. Fjármögnunin mun þó einungis ná til þeirra íbúða sem eru minni en 130 fermetrar en það á við um 396 af 450 íbúðum Kletts.

Um þriðjungur eigna Kletts eru á höfuðborgarsvæðinu, tæp 16% á Suðurlandi, tæp 17% á Suðurnesjum og rétt undir 10% á Austurlandi.